Björn Þorsteinsson 

Um Björn

Ég hef gegnt starfi prófessors í heimspeki við Háskóla Íslands frá árinu 2016. Tveimur árum fyrr var ég ráðinn lektor í heimspeki. Frá 2004 til 2014 vann ég ýmis störf við Háskólann, var stundakennari og vann við rannsóknir sem sérfræðingur og nýdoktor, en starfaði einnig sem aðstoðarmaður á rektorsskrifstofu og hafði sem slíkur umsjón með því að koma Háskóla unga fólksins á fót auk annarra verkefna sem náðu til Háskólans alls.

Ég bý yfir víðtækri reynslu af kennslu, rannsóknum og stjórnun innan Háskóla Íslands. Ég hef verið farsæll í starfi, vinsæll kennari og fengsæll í rannsóknum. Mér hefur verið treyst fyrir margvíslegum trúnaðarstörfum þar sem reynir á dómgreind, vandvirkni og staðfestu. Ég er mannasættir og vil að fólki líði vel á vinnustaðnum en forðast ekki að taka erfiðar ákvarðanir þegar þörf krefur.

Meðal þeirra trúnaðarstarfa sem ég hef gegnt innan Háskólans eftir fastráðningu má nefna formennsku í kennslunefnd Hugvísindasviðs og setu í Kennslumálanefnd HÍ, formennsku í fagráði Hugvísindasviðs hjá Rannsóknasjóði HÍ (Doktorsnámssjóði/Eimskipafélagssjóði) og setu í stjórn þess sjóðs, setu í Vísindanefnd Háskólans, setu í Jafnréttisnefnd Hugvísindasviðs, setu í úttektarnefnd um vinnumatskerfið sem skipuð var að frumkvæði rektors 2015 og setu á Háskólaþingi sem fulltrúi Hugvísindasviðs auk starfa sem formaður námsbrautar í heimspeki og forstöðumaður Heimspekistofnunar.

Ég hef átt því láni að fagna að taka þátt í og stýra nokkrum stórum rannsóknarverkefnum sem hlotið hafa öndvegisstyrk frá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) og veglega styrki frá Evrópusambandinu (Horizon 2020) og Evrópska rannsóknarráðinu (ERC). Ég nýt mín vel í þverfaglegum rannsóknum og hef starfað með vísindafólki af flestum sviðum Háskólans.

Ég er höfundur fræðibóka á íslensku og frönsku og hef birt greinar í tugatali í heimspekitímaritum og greinasöfnum, alþjóðlegum og innlendum, á íslensku, ensku og fleiri málum. Þar að auki hef ég ritstýrt fjölda bóka og tímaritshefta. Ég hef þýtt fjölmargar bækur og greinar yfir á íslensku úr dönsku, ensku, frönsku og þýsku. Heildarfjöldi verka á ritaskrá minni er kominn vel á þriðja hundraðið. Ég legg í rannsóknum mínum mikla áherslu á íslenska tungu og tel það eitt meginhlutverk Háskóla Íslands að halda úti fræðaiðkun á íslensku.

Um fræðastörf mín og afurðir þeirra vísast að öðru leyti á ritaskrá mína og ferilskrá hér á vefsíðu minni.

Björn hefur gegnt ýmsum stjórnunar- og ábyrgðarstöfum innan Háskóla Íslands, m.a. setið í Kennslumálanefnd HÍ, í Vísindanefnd Háskólans, Jafnréttisnefnd Hugvísindasviðs og í stjórn Hugvísindastofnunar. Þá hefur hann gegnt formennsku í fagráði Hugvísindasviðs hjá Rannsóknasjóði HÍ og setið í stjórn þess sjóðs, setið í úttektarnefnd um vinnumatskerfið sem skipuð var að frumkvæði rektors 2015 og verið fulltrúi Hugvísindasviðs í nefnd um úttekt á matskerfi opinberra háskóla. Þá hefur hann setið lengi á Háskólaþingi sem fulltrúi samstarfsfólks síns á Hugvísindasviði, verið formaður námsbrautar í heimspeki og forstöðumaður Heimspekistofnunar. Björn hefur setið í fjölda ráðningarnefnda, bæði við námsbraut í heimspeki og í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum.

Björn hefur tekið þátt í að leiða stór rannsóknarverkefni sem hlotið hafa öndvegisstyrk frá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís), Evrópusambandinu (Horizon 2020) og Evrópska rannsóknarráðinu (ERC) og skipulagt verkefni og ráðstefnur innan þessarra verkefna. Hann var fulltrúi Íslands í framkvæmdastjórn samstarfsnetsins COST Action IS1307 New Materialism og stjórnarmaður í einu virtasta félagi heimspekinga á Norðurlöndum, Norræna fyrirbærafræðifélaginu (Nordic Society for Phenomenology, NoSP), um árabil.

Meðal annarra ábyrgðarstarfa má nefna að Björn var fulltrúi í fagráði hug- og félagsvísinda hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna, fulltrúi Vísindasviðs í ritrýninefnd Háskólaútgáfunnar og í upphafi feril síns var hann starfsmaður kennslusviðs Háskóla Íslands við frágang umsóknar HÍ um viðurkenningu til menntamálaráðuneytis, verkefnisstjóri á rektorsskrifstofu Háskóla Íslands og fyrsti skólastjóri Háskóla unga fólksins.

Þá hefur Björn mikla reynslu sem ritstjóri en hann var ritstjóri Lærdómsrita Hins íslenzka bókmenntafélags í tíu ár, auk þess að vera ritstjóri Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands og ritstjóri Hugar: Tímarits um heimspeki.

Björn er með doktorspróf í heimspeki frá Parísarháskóla en hefur auk þess lagt stund á háskólanám og starfað við rannsóknir á  Íslandi, í Kanada, í Frakklandi og í Danmörku og hefur góða innsýn í starfsemi háskóla í ólíkum löndum.

Í heimi þar sem ógnir steðja að úr ólíkum og oft á tíðum óvæntum áttum er góð tungumálakunnátta og skilningur á ólíkum menningarsvæðum lykilatriði. Björn talar ensku, frönsku, þýsku og dönsku og hefur tekið þátt í samstarfsverkefnum við erlenda háskóla þar sem tungumálakunnátta hans hefur komið að góðum notum. Hann hefur meðal annars verið andmælandi við doktorsvarnir og setið í matsnefndum við háskóla í Frakklandi, Svíþjóð og Finnlandi auk Háskóla Íslands. Þá hefur hann verið leiðbeinandi doktorsnema frá ólíkum heimshlutum, meðal annars frá Bandaríkjunum, Kanada, Líbanon, Frakklandi og Danmörku og fengið góða innsýn í rannsóknarumhverfi í heimalöndum þeirra.

Björn er höfundur fræðibóka á íslensku og frönsku og hef birt greinar í tugatali í heimspekitímaritum og greinasöfnum, alþjóðlegum og innlendum, á íslensku, ensku og fleiri málum og þýtt fjölmargar bækur og greinar yfir á íslensku úr dönsku, ensku, frönsku og þýsku.

Björn var formaður kennslunefndar Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og fulltrúi sviðsins í Kennslumálanefnd Háskóla Íslands á árunum 2018-2020. Hann hefur birt greinar um kennsluþróun í Tímarit Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands og beitt sér fyrir umræðu um aðferðir og þróun kennslu um árabil.

Hann hefur kennt við Háskóla Íslands frá árinu 2004. Hann hefur einnig verið leiðbeinandi fjölda BA og MA nemanda og hefur góða reynslu sem leiðbeinandi doktorsnema en sextán doktorsnemar hafa haft eða hafa Björn sem leiðbeinanda eða nefndarmeðlim í doktorsnefnd sinni.

Auk þess að kenna við Hugvísindasvið Háskóla Íslands hefur Björn verið stundakennari við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, og hefur kennt við Listaháskóla Íslands og Endurmenntun Háskóla Íslands. Hann hefur auk þess setið í doktorsnefndum nemenda við bæði Heilbrigðisvísindasvið, Menntavísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið, auk Hugvísindasviðs.

🌿🌿🌿🌿🌿🌿

„Björn veitir uppbygglega gagnrýni, hann er fær í samskiptum og nálgast fólk af virðingu, hvort sem það eru háir eða lágir. Ég er viss um að ótal núverandi og fyrrverandi nemendur í HÍ geta tekið undir með mér. Hann fær allra bestu meðmæli frá mér.“

Sigurjón Bergþór Daðason, doktorsnemi í heimspeki.